Athuga möguleika á meðhöndlun úrgangs í Neslandi

Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands hefur sett á laggirnar starfshóp til að vinna að undirbúningi athugunar á möguleikum á meðhöndlun úrgangs í landi Ness í Ölfusi.

Starfshópinn skipa þau Ásta Stefánsdóttir frá Sveitarfélaginu Árborg, Jón G. Valgeirsson frá Hrunamannahreppi, tveir fulltrúar úr Ölfusi og fulltrúi frá Sorpu.

„Það hefur engin framtíð verið tekin um framtíð þessa svæðis sem um ræðir, aðeins á að skoða það í þessari atrennu hvort menn telji fýsilegt að rannsaka það frekar,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Hópurinn á að hafa lokið störfum þann 1. júní næstkomandi. Nesland er um sex kílómetra frá Strandarkirkju og níu kílómetra vestan Þorlákshafnar.

„Til frekari upplýsingar þá er í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs gert ráð fyrir því að urðun lífræns og brennanlegs úrgangs verði hætt innan fimm ára,“ segir Gunnsteinn.

Umrædd svæðisáætlun er samstarfsverkefni allra helstu sorpfyrirtækja á suð-vesturhorninu. Þær stofnanir annast meðhöndlun úrgangs fyrir 34 sveitarfélög með alls yfir 250 þúsund íbúa.

Fyrri greinDásamlegar raw pekan muffinskökur með karamellu
Næsta greinÖruggt hjá Hamri á Ísafirði