Átak í skráningu fasteigna

Bæjaryfirvöld í Árborg hafa sett af stað átak í fullskráningu fasteigna í sveitarfélaginu í þeim tilgangi að ná inn tekjum í samræmi við notkun húsanna.

Byggingafulltrúa sveitarfélagsins hefur verið falið í samvinnu við Þjóðskrá Íslands að að gera skurk í færslu húsa til skráningar en álagning fasteignaskatts fer eftir skráðu byggingastigi. Er þetta gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hækkun fasteignagjalda, en sveitarfélagið sér fram á lækkun tekna af fasteignum að óbreyttu vegna lækkunar fasteignamats.

Nú þegar hefur skráningu um 60 fasteigna verið breytt og er áætlað að þær verði um 150 þegar átakinu lýkur en skráningu þarf að vera lokið fyrir áramót.

Alls eru um 500 hús á lista yfir þær fasteignir í Árborg sem ekki hafa verið skráðar fullbúnar að sögn Samúels Smára Hreggviðssonar umdæmis­stjóra Þjóðskrár Íslands á Selfossi. Hann segir mikinn fjölda húsa of lágt metin. Þá séu brögð að því að eignir séu tilbúnar og komnar í fulla notkun en eigendur hafa ekki tilkynnt þær réttilega inn. Slík undanbrögð geti kostað sveitarfélög milljónatugi.