Ástusjóður gaf nýjan dróna á Hellu

Fulltrúar Ástusjóðs og Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu við afhendingu drónans. Ljósmynd/Aðsend

Ástusjóður gaf Flugbjörgunarsveitinni á Hellu nýjan dróna í gær en dróninn er sér hannaður fyrir björgunarsveitir og vel útbúinn.

Um er að ræða nýjasta Mavic 2 Enterprice drónann frá DJI en dróninn er útbúinn hitamyndavél, leitarljósum og hátalara. Dróninn mun koma sveitinni að notum í sínum mikilvægu störfum.

Ástusjóður þakkar öllum sem studdu sjóðinn með því að heita á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst síðastliðnum og þeim sem studdu og styðja sjóðinn með öðrum hætti. Sá stuðningur gerir þetta kleift.

Ástusjóður hefur frá árinu 2014 gefið björgunarsveitunum dróna og uppfært þá reglulega enda þróast þeir hratt. Sjóðurinn var stofnaður 25. júlí 2014 til minningar um Ástu Stefánsdóttur lögfræðing sem lést af slysförum sumarið 2014 í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð. Sjóðurinn er fjármagnaður beinum fjárframlögum, sjálfboðavinnu, þátttöku í styrktartónleikum, maraþonhlaupi og kaupum á minningar- og jólakortum.

Fyrri greinSamið um umhverfisvottun miðbæjarkjarnans á Selfossi
Næsta greinÞakklát fyrir frábærar móttökur – Opna nýtt bakarí á Hellu