Ástþór gefur kost á sér á lista Samfylkingarinnar

Mýrdælingurinn Ástþór Jón Ragnheiðarson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2.-3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

„Það væri mér heiður að fá tækifæri til þess að nýta reynslu mína og þekkingu til að vinna í þágu míns kjördæmis og landsins í heild. Mikilvægt er að þingmenn Suðurkjördæmis vinni fyrir alla íbúa Suðurlands og gleymi ekki dreifbýlinu og minni byggðarkjörnum. Ég er afar óhefðbundinn í raun og veru, en við eigum nóg af venjulegu fólki á þingi. Fái ég tækifæri, langar mig til að beita mér fyrir hinum ýmsu málum; landbúnaði, samgöngum, lýðheilsu og kjaramálum svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Ástþór í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í morgun.

Ástþór verður 22 ára þann 22. nóvember næstkomandi, hann er fæddur og uppalinn Mýrdælingur og bjó þar þangað til í janúar síðastliðnum að hann flutti á Hellu ásamt kærustu sinni, Tönju Margréti Fortes.

Hann hefur lengi starfað að félagsmálum, meðal annars í íþróttahreyfingunni, en frá árinu 2015 hefur hann setið í ungmennaráði UMFÍ og verið formaður þess síðan 2019. Þá hefur hann setið í stjórn ASÍ-UNG síðan 2018 og verið varaformaður síðan 2020, auk þess sem hann á sæti í efnahags- og skattanefnd ASÍ.

Fyrri greinLindex styður baráttuna gegn brjóstakrabbameini níunda árið í röð
Næsta greinSmitum fækkar á Suðurlandi