„Ástandið vægast sagt alvarlegt“

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, gerði málefni og stöðu sjúkraflutninga á Suðurlandi að umtalsefni á Alþingi í dag.

Í ræðu sinni sagði Karl Gauti að hann teldi nauðsynlegt að hið opinbera styddi miklu betur við heilbrigðisstofnanir úti á landi.

„Nú nýverið var ákveðið af sparnaðarástæðum að fara í breytingar á mönnun í sjúkraflutningum þar sem sólarhringsvakt breyttist í bakvaktir sjúkraflutningsmanna á nóttunni í Rangárþingi. Það vita allir sem búið hafa við bakvaktir að viðbragðið er seinna á ferðinni og leiðir til skerðingar á þjónustu og þar að auki er 24 tíma vakt á Hvolsvelli gríðarmikill stuðningur fyrir starfsstöðvarnar fyrir austan Hvolsvöll þar sem mörg alvarleg slys hafa orðið að undanförnu,“ sagði Karl Gauti í ræðu sinni og benti einnig á þá staðreynd að sjúkrabílaflotinn á Suðurlandi sé kominn á tíma en stofnunin hefur til umráða tíu sjúkrabíla.

„Það er staðreynd að engin sjúkrabifreið í fyrstu útkallslínu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er ekin undir 200.000 km. Einhverjir bílar eru eknir á fjórða hundrað þúsund kílómetra svo ástandið er orðið vægast sagt alvarlegt. Í þessu ljósi er alvarlegt að enn hefur útboði vegna fyrirhugaðra kaupa á sjúkrabifreiðum verið frestað. Frestur átti að vera til 7. febrúar en því var frestað til 13. mars og nú hefur því verið frestað fram á haustið.“

Fyrri greinKFR tapaði á útivelli
Næsta greinHátíðartónleikar í kirkjum Rangárþings