„Ástandið á Þykkvabæjarvegi ekki boðlegt“

Sonur Daggar slapp ómeiddur frá bílveltunni. Ljósmynd/Aðsend

Íbúar í Þykkvabæ eru margir óánægðir með vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á Þykkvabæjarvegi.

Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er vegurinn þjónustaður fjóra daga vikunnar frá kl. 7:30 til 19:30 og á sunnudögum frá kl. 9:00 til 18:00. Engin vetrarþjónusta er á veginum á þriðjudögum og laugardögum.

Dögg Ingimundardóttir, íbúi í Þykkvabæ, segir að Vegagerðin hafi markvisst minnkað þjónustu á vegum á landsbyggðinni undanfarin ár og að ástandið á Þykkvabæjarvegi sé ekki boðlegt.

„Vegurinn hingað niður í Þykkvabæ er oftar en ekki stórvarasamur. Glæra hálka, snjór og krapi virðist bara vera fyllilega ásættanlegt af hálfu Vegagerðarinnar, þrátt fyrir 90 km/klst hámarkshraða á veginum. Hann er reyndar varla betri á sumrin þar sem hann er holóttur og siginn og einfaldlega ónýtur á köflum,“ segir Dögg.

Sonur hennar varð fyrir því óláni fyrr í mánuðinum að skauta útaf veginum og velta bílnum sínum. Pilturinn slapp með skrekkinn, ómeiddur.

„Hann var ekki nema á 60 km/klst hraða og á glænýjum negldum vetrardekkjum en aðstæður voru þannig að það var sól, krapabráð og svo í beinu framhaldi svell. Hann hringdi í mig og sagði mér að bíllinn hefði oltið og ég get alveg viðurkennt að þetta er símtal sem mér hefur kviðið fyrir frá því að við fluttum hingað í Þykkvabæinn,“ bætir Dögg við og vandar stjórnendum Vegagerðarinnar ekki kveðjurnar. 

Þetta var aldrei spurning um hvort heldur hvenær eitthvað myndi gerast og það á vegi sem skólabíll með sautján börnum innanborðs ekur tvisvar sinnum á dag. Stjórnendur Vegagerðarinnar eiga að skammast sín fyrir þetta,“ segir Dögg.

Hvorki langleið né vegur milli þéttbýlisstaða
Sunnlenska.is leitaði upplýsinga um þjónustu á Þykkvabæjarvegi hjá G. Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Hann segir að snjómokstursreglurnar taki mið af umferð á vegunum.

Vegakerfið er tæpir 13 þúsund kílómetrar og þar af eru um 5.000 kílómetrar með vetrarþjónustu. Þykkvabæjarvegur er í þjónustuflokki 3 og telst hvorki langleið né vegur milli þéttbýlisstaða,“ segir G. Pétur en vegir í þjónustuflokki 3 eru þjónustaðir 3-5 daga yfir vetrartímann.

„Umferðin þarf að aukast verulega mikið til að vegurinn fari í hærri þjónustuflokk – og þá um leið auknar fjárveitingar,“ segir G. Pétur ennfremur en vetrardagsumferð á Þykkvabæjarvegi er 130-230 bílar.

Fyrri greinAfgreiðslum lögreglunnar lokað
Næsta greinSnilldarverk bauð lægst í vegheflun