Ástandið slæmt hjá allt of mörgum

Í ár líkt og undanfarin ár stóð Baldur Róbertsson hjá BR flutningum á Selfossi fyrir matargjöfum í samstarfi við félagsþjónustu Árborgar.

Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, félagsmálastjóri Árborgar, segir að ástandið sé því miður slæmt hjá allt of mörgum fjölskyldum og vill hún koma á framfæri þakklæti til allra sem komu að söfnuninni.

Auk BR flutninga sem gáfu peninga og alla vinnu við flutning og skipulag vegna matargjafanna, styrktu meðlimir Bifhjólaklúbbsins Utangarðsmanna söfnunina í formi fjárframlaga og vinnu. Einnig bárust fjárframlög frá GT Óskarsson verslun í Kópavogi sem selur bílavarahluti og gaf andvirði fimmtíu felguróa eða 50.000 kr. Bílaverkstæðið HH í Kópavogi styrkti einnig með fjárframlagi.

Bergþóra, Helena og Guðbjörg Hólm hekluðu tuskudúkkur og seldu á netinu og gáfu ágóðann til matargjafanna eða 125.000 kr. Fyrirtæki sem styrktu með matargjöfum voru SS, Kjörís, Ora, Myllan, Íslensk ameríska, Nói Sírius, Vífilfell, Guðni kartöflubóndi í Þykkvabæ og Krónan á Selfossi.

Þá styrktu Sveppi, Skoppa og Skrítla og fyrirtækin Hreyfimyndasmiðjan, Myndform og Samfilm/Sambíó með DVD diskum og fleiru.

Fyrri greinFestist í færibandi
Næsta greinPartur af jólastemmningu Sunnlendinga