Ástand Suðurstrandarvegar heldur verra

Sprunga í Suðurstrandarvegi undir Núpshlíð. Þetta er þó ekki sprungan sem veldur því að vegurinn er lokaður en þær skemmdir eru í Festarfjalli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Suðurstrandarvegur verður áfram lokaður en ástand hans við Festarfjall er svipað og var í gær en hefur heldur þróast til verri vegar.

Í ljósi áframhaldandi jarðskjálftavirkni og spár um rigningu á svæðinu næsta daga hefur verið tekin sú ákvörðun að halda veginum lokuðum, að minnsta kosti fram yfir helgi. Fylgst verður náið með ástandinu um helgina og ákvörðun um framhaldið tekin í byrjun næstu viku.

Við skoðun í morgun komu í ljós nýjar sprungur og hefur sigið aðeins meira á þeim stöðum sem vegurinn hafði sigið áður.

Neyðaraðilar, í samráði við Vegagerðina, geta farið um Suðurstrandarveg reynist þess þörf en mælt er með að menn aki hlíðarmegin á veginum og verður tryggt að hin akreinin sé óaðgengileg og er það gert með gátskjöldum.

Bætt verður við skiltum til að láta vegfarendur vita með lengri fyrirvara en áður, hvorttveggja í Grindavík og við Þorlákshöfn.

Fyrri greinGrundvallaratriði að kippa ekki fótum undan starfsmenntanáminu
Næsta greinDýpra niður á klöpp en áður var talið