Ásta stjórnar Leigubústöðunum

Bæjarstjórn Árborgar skipaði Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, eina stjórnarmann Leigubústaða Árborgar á fundi sínum í gær.

Varamaður verður Tómas Ellert Tómasson.

Bæjarráð Árborgar gerði fyrir skömmu breytingar á stjórn Leigubústaðanna þar sem stjórnarmönnum var fækkað úr þremur í einn og framkvæmdastjóra félagsins var sagt upp. Með þessari breytingu gegnir stjórnarmaðurinn jafnframt hlutverki framkvæmdastjóra félagsins.

Bæjarstjórn samþykkti að allar meiriháttar ákvarðanir sem snerta félagið skuli lagðar fyrir bæjarráð fyrirfram. Nær samþykkt þessi m.a. til ákvarðana um kaup og sölu eigna, lántöku og veðsetningar, ráðstöfunar hagnaðar og ákvörðunar leigugjalds.

Breytingarnar voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn.