Ásta ráðin framkvæmdastjóri Árborgar

Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari í Árborg, verður fyrsti framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. Ráðning hennar verður samþykkt á bæjarráðsfundi í fyrramálið.

Ásta hefur starfað sem bæjarritari sveitarfélagsins frá árinu 2006 og jafnframt verið staðgengill bæjarstjóra.

Þá hefur hún gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs frá haustinu 2008. Áður en hún hóf störf hjá Sveitarfélaginu Árborg starfaði hún sem fulltrúi hjá Sýslumanninum á Selfossi og staðgengill sýslumanns. Þá var hún settur dómari við Héraðsdóm Suðurlands um nokkurt skeið.

Ásta er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur að auki aflað sér menntunar á ýmsum sviðum opinberrar stjórnsýslu.

Eiginmaður hennar er Aðalbjörn Þ. Baldursson og eiga þau tvær dætur. Þau hafa verið búsett á Selfossi s.l. þrjú ár, en bjuggu áður á Stokkseyri.

Fyrri greinVatnshallæri í Flóahreppi
Næsta greinTekjuhæstu Sunnlendingarnir