Ásta með samtals 1,6 milljón í laun á mánuði

Ráðningarsamningur Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar, var samþykktur á bæjarráðsfundi í morgun. Hún fær samtals 1,6 milljón króna á mánuði fyrir ýmis störf fyrir sveitarfélagið.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, lagði fram nokkrar breytingartillögur á ráðningarsamningnum en þær voru felldar af fulltrúum D-listans.

Meðal annars lagði Eggert til að föst laun framkvæmdastjórans yrðu 1 milljón króna í stað 1.150 þúsund króna. Auk þess yrðu launin ekki tengd við breytingu á launavísitölu heldur fylgi breytingum á launum þess stéttarfélags sem framkvæmdastjórinn greiðir í. Einnig lagði Eggert til að framkvæmdastjórinn fái greiddan akstur samkvæmt akstursdagbók í stað þess að fá greidda aksturspeninga sem samsvara 1.400 km mánaðarlega, algjörlega óháð hversu mikið hún ekur. Og einnig að ekki verði um sérstakar launagreiðslur að ræða fyrir störf fyrir Leigubústaði Árborgar, sem reknir eru af sveitarfélaginu.

Eggert Valur gerði grein fyrir atkvæði sínu þegar kosið var um breytingartillöguna. „Samkvæmt þeim ráðningarsamning sem hér er til afgreiðslu, er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri sveitarfélagsins fái þóknun fyrir sín störf um það bil 1,6 milljón króna á mánuði eða tæpar 80 milljónir króna á kjörtímabilinu,“ segir Eggert í bókun sinni en laun Ástu sundurliðast á þann hátt að föst laun eru 1.150.000 kr., mánaðarleg laun vegna Leigubústaðanna 100.000 kr., fastur bifreiðastyrkur 162.000 kr., laun vegna formennsku í skipulags- og byggingarnefnd 30.000 og laun fyrir starf kjörins bæjarfulltrúa 158.000 kr.

„Á fundi kjaranefndar þann 7. júlí síðastliðinn var ráðningarsamningur framkvæmdastjórans til umfjöllunar. Á þeim fundi voru lagðar fram athugasemdir við samninginn sem meirihluti nefndarinnar sá ekki ástæðu til þess að taka tillit til. Sá samningur sem hér er til afgreiðslu er ekki í takt við þau ráðningarkjör og laun sem tíðkast hafa hjá sveitarfélaginu, auk þess sem gert er ráð fyrir að launin fylgi breytingum á launavísitölu en fylgi ekki almennum launabreytingum. Sem dæmi má nefna að ef fyrri samningur hefði verið tryggður með sama hætti hefðu laun framkvæmdastjórans hækkað um tæp 30% á síðasta kjörtímabili,“ sagði Eggert ennfremur í bókun sinni.

Ráðningarsamningurinn var borinn undir atkvæði og samþykktur með tveimur atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, gegn atkvæði bæjarfulltrúa S-lista.

Fyrri greinVerslanir týna tölunni á Selfossi
Næsta greinTíu Rangæingar sneru leiknum við