Aspir grautfúnar að innan

„Margar af öspunum eru grautfúnar að innan í Hreppnum. Mergurinn er svartur og hægt að moka hann upp með puttanum“, segir Guðmundur Magnússon, trésmíðameistari á Flúðum.

Guðmundur segist hafa tekið lengi eftir þessu og svo virðist sem þetta sé bundið við einstök kvæmi af öspum. Hins vegar lifi trén góðu lífi þrátt fyrir þetta því að flutningur vatns og næringarefna fer fram við trjábörkinn.

„Þetta er greinilega eitthvað sem við þurfum að skoða“, segir Halldór Sverrisson, sérfræðingur um plöntusjúkdóma og kynbætur trjáa hjá Rannsóknarstöð skógræktar Mógilsá. „Fúi er sjaldgæfur í íslenskum trjám vegna þess hve fáir fúasveppir eru hérlendis og trén eru ung. Þegar trén eldast er þeim hættara við sveppum“, segir Halldór.

Hann hefur þó ekki rekist sjálfur á asparfúa á borð við þann sem Guðmundur greinir frá en segir þetta vera algengt erlendis. Fúin tré eru hættuleg í borgum að sögn Halldórs og erlendis er vel fylgst með slíku. Tré geti jafnvel verið hol að innan vegna fúa og þannig getur burðarstyrkur trésins veikst.

Halldór sagði að hugsanlega gætu fúnu aspirnar verið Kenai-klónar sem eru elstu klónar aspartrjáa sem fluttar voru hingað til lands frá Alaska. Á Reykjavíkursvæðinu og við suðurströndina fóru klónarnir mjög illa í miklu hretviðri 1963 og því voru valdir Alaskaklónar frá Alaska eftir 1960. Trén stóðu hretið hins vegar af sér í uppsveitum Árnessýslu og eru enn algeng þar.

Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og skógarvörður á Suðurlandi, hefur rekist á nokkuð af slíkum skemmdum í öspum og telur að fúinn geti verið tilkominn vegna eldri kalskemmda eða brotinna greina sem opni leið fyrir rotsveppi inn í trén. Segir Hreinn það mikilvægt að kvista tré að vetri til eða snemma vors því þá dæli tréð harpix hraðar í sárið og loki því þannig fyrr. Auk þess sem rotsveppir séu aðallega á ferðinni að hausti til.

Fyrri grein„Tekur 200 ár að byggja upp golfvöll“
Næsta greinUpptökur frá fyrstu árum byggðar