Ásmundur Sverrir hættir hjá Fræðslunetinu

Fræðslunet Suðurlands hefur auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra, en núverandi framkvæmdastjóri, Ásmundur Sverrir Pálsson lætur af störfum um áramót.

Ásmundur hefur starfað hjá Fræðslunetinu frá árinu 2003 og verið framkvæmdastjóri þess frá 2006. Hann segir að á þeim tíma ha orðið verulegar breytingar á starfseminni.

„Við vorum á tímabili tveir starfsmenn, en nú hefur fjölgað talsvert og eru nú orðnir tólf, enda umsvifin miklu meiri,“ segir hann. Starfsvæði stofnunarinnar hefur jafnframt stækkað og spannar nú fjórar sýslur. Ásmundur segir að meðal helstu breytinga megi nefna mikla tækniþróun sem auðveldi fjarkennslu mjög. „Enda leggjum við áherslu á að binda þetta stóra svæði saman með fjarkennslu eins og hægt er,“ segir hann.

Þá fólst líka mikil breyting í tilkomu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, og samningar á vinnumarkaði sem hafa gert fólki kleift að sækja tiltölulega löng námskeið án þess að því fylgi mikill kostnaður fyrir viðkomandi.

Sjálfur hefur Ásmundur starfað að fræðslustörfum um áratugaskeið. „Ég er búinn að vera í fræðslugeiranum í yfir fjörutíu ár,“ segir hann.

Samkvæmt auglýsingunni rennur umsóknarfrestur út í dag, laugardag, og segir Ásmundur að æskilegast sé að eftirmaður hans komi til starfa sem allra fyrst, og að hann geti sett viðkomandi inn í störf áður en árið er á enda.

Fyrri greinMyndasýning og dúndrandi kvöldvaka á Sólheimum
Næsta greinSirra Sigrún fékk styrk úr Listasjóði Guðmundu