Askan situr á öllu

Lítilsháttar snjókoma hefur verið í Vík í Mýrdal í morgun en henni fylgir öskudrulla sem situr nú á húsum og bílum í þorpinu.

“Það hefur verið smá snjókoma hér í Vík í morgun og vindbelgingur. Með snjónum hefur komið þessi öskuviðbjóður sem situr hér á öllu, húsum, bílum og fleiru,” sagði Sigurður Hjálmarsson í Vík í samtali við sunnlenska.is en hann sendi okkur myndina sem fylgir þessari frétt.

Skólahald var fellt niður í Víkurskóla í morgun vegna veðurs og á Mýrdalssandi og undir Eyjafjöllum er sandfok.