Askan hefur ekki áhrif á vatnalíf

Ólíklegt er að öskuframburður vegna eldgossins í Grímsvötnum hafi teljandi áhrif á vatnalífríki lindánna í Skaftárhreppi.

Hins vegar geta meiri áhrif komið fram í dragánum. Segja má að allflest vatnsföll Skaftárhrepps hafi litið út eins og jökulvötn eftir að gosið hófst.

Þetta kemur fram í frétt frá Veiðimálastofnun, en starfsmenn hennar skoðuðu fyrir helgi vatnsföll í Landbroti, á Síðu og í Fljótshverfi í Skaftárhreppi. Aska var alls staðar greinileg á jörðu, en fór mikið vaxandi þegar komið var austur fyrir Fossála og austur í Fljótshverfi, en þar varð öskufallið mest.

Rafleiðni í ánum var hærri en hún er undir eðlilegum kringumstæðum. Veiðimálastofnun hefur ekki spurnir af neinum fiskdauða í ám eða vötnum í kjölfar Grímsvatnagossins.

„Þótt fyrstu niðurstöður bendi til þess að gosaskan hafi ekki haft teljandi áhrif á fiska í ám í Skaftárhreppi kunna enn að koma fram skaðleg áhrif þegar aska skolast í árnar. Kviðpokaseiði, sem eru viðkvæm, eru nú í mölinni og kunna þau að hafa skaðast. Frekari rannsóknir munu væntanlega gefa betri mynd af hver áhrif öskufalls frá Grímsvötnum hefur haft á fiska í ám í Skaftárhreppi,“ segir í fréttinni.

Fyrri greinEining gaf hjartastuðtæki
Næsta greinGengið á Bjarnafell í kvöld