Ásahreppur viðrar sameiningarviðræður

Þjórsárbrú. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á fundi sínum í morgun að óska eftir fundi með sveitarstjórum í Rangárvallasýslu til að ræða möguleika um sameiningar sveitarfélaganna í sýslunni.

Að þeim fundi loknum yrði tekin ákvörðun um hvort farið yrði í formlegar sameiningarviðræður. Auk þess hyggst hreppsnefnd Ásahrepps kynna þá möguleika sem eru til staðar á íbúafundi áður en formlegar viðræður verða teknar upp.

Í Ásahreppi búa 317 íbúar og er það fámennasta sveitarfélagið í sýslunni. Í Rangárþingi ytra búa 1.960 manns og í Rangárþingi eystra 2.123. Sameinað sveitarfélag í sýslunni yrði það fjölmennasta á Suðurlandi á eftir Árborg.

Kolfelldu stóra sameiningu 2021
Umræðan í Ásahreppi kviknar nú vegna breyttra laga um stærð sveitarfélaga. Á hreppsnefndarfundinum í morgun voru lögð fram ýmis gögn frá síðustu vinnu við sameiningu sveitarfélaga í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Árið 2021 kolfelldu íbúar í Ásahreppi þá sameiningartillögu en tillagan var samþykkt í hinum sveitarfélögunum fjórum.

Fyrri greinKatharina á forsetalistann
Næsta grein„Ég hélt að þetta væri eitthvað gabb“