Ásahreppur gerir áfram vel við íbúa sína

Stefnt er að því að allir aðalvegir í Ásahreppi verði með bundnu slitlagi í haust og fyrirhugað er að leggja ljósleiðara um hreppinn á næstunni.

Undanfarið hefur verið unnið að því að leggja slitlag á þá vegi sem skildir voru eftir í átaki sem ráðist var í 1996 til 1998. Þá voru nokkrir vegir skildir eftir vegna þess að ekki var föst búseta á viðkomandi bæjum.

Að sögn Eydísar Þ. Indriðadóttur, oddvita Ásahrepps, eru horfur á að verkinu verði lokið í haust. Á sama tíma er Ásahreppur að skoða möguleika á að leggja ljósleiðara í öll íbúðahús í hreppnum.

Að sögn Eydísar er fyrirhugað að leggja ljósleiðarann á næstu þremur árum og hefur hreppurinn verið að leitast eftir kostnaðarmati.

Ekki liggur fyrir hvort sveitarfélagið greiðir kostnaðinn að öllu leyti eða hvort íbúar borga einhvern hluta hans.

Fyrri greinNauðsynlegt að ráðast í nýbyggingu
Næsta greinVeiðin að glæðast í Rangánum