Ása Björk ráðin prestur í Árborg

Sr. Ása Björk Ólafsdóttir.

Ása Björk Ólafsdóttir hefur verið ráðin prestur í Árborgarprestakalli. Starfið var auglýst á dögunum og bárust fjórar umsóknir um starfið.

Sr. Ása Björk er fædd í Færeyjum þann 28. apríl árið 1965. Hún ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, en hefur einnig búið í Færeyjum, Grænlandi, Neskaupstað, London, Helsinki og á Írlandi þar sem hún hefur lengst af starfað sem prestur.

Sr. Ása Björk var kennari í 10 ár, en fór síðan í guðfræði árið 2000 og starfaði við ýmsar kirkjur á námstímanum. Hún vígðist til Fríkirkjunnar í Reykjavík árið 2005 og var síðan í afleysingu sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi 2008-2009. Þá fór hún aftur í nám, en tók síðan við sem sóknarprestur í söfnuðum í Kells og Donaghpatrick á Írlandi árið 2010.

Árið 2013 flutti hún til Dublin til safnaðar í Dun Laoghaire, syðst í Dublin og hefur verið sóknarprestur þar í 10 ár.

Með starfi lauk hún námi í klínískri sálgæslu og hefur einnig starfað sem sjúkrahússprestur. Þá hefur sr. Ása Björk einnig verið aðalræðismaður Íslands á Írlandi í nokkur ár.

Fyrri grein„Ganga er ekki raunhæfur ferðamáti fyrir stóran hluta Selfyssinga“
Næsta greinPerla snýr heim