Ásættanlegur námsárangur hjá föngum

Í upphafi nýliðinnar haustannar innrituðu 54 fangar á Litla-Hrauni og Sogni sig í nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Í heildina var námsárangurinn ásættanlegur en talsvert brottfall varð á önninni.

Fangarnir voru innritaðir í samtals 406 einingar en eins og jafnan áður hófu sumir þeirra aldrei námið, hættu snemma, losnuðu úr fangelsi áður en önninni lauk, eða höfðu sagt sig úr einhverjum áföngum.

Alls voru þreytt 67 próf á önninni og lágu 150 einingar undir. Af þeim skiluðu 127 sér í námsferla. Um 2/3 hlutar einkunnanna voru upp á 7 og þar yfir. Þórarinn Ingólfsson, aðstoðarskólameistari, sagði í annarannál sínum við brautskráningu í FSu á föstudaginn að þetta verði að teljast ásættanlegur árangur miðað við aðstæður.

Ingis Ingasyni, voru þökkuð góð störf á brautskráningunni, en hann hefur nú látið af stöfum. Ingis hefur starfað sem kennslustjóri á Litla-Hrauni frá því í nóvember 1986 og á Bitru og Sogni eftir að fangelsisrekstur hófst þar.

Fyrri greinJötunn vélar opna á Egilsstöðum
Næsta greinBest skreyttu húsin í Árborg verðlaunuð