Ársæll sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Ársæll, Emilía og Erla Björt. Ljósmynd/Aðsend

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk var haldin í Grunnskólanum í Hveragerði síðastliðinn fimmtudag og var hin hátíðlegasta að vanda.

Lokahátíðin er samstarfsverkefni grunnskólanna, Radda, skólaþjónustu Árborgar og Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

Skólarnir sem áttu fulltrúa á þessari lokahátíð voru Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Grunnskólinn í Hveragerði, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Sunnulækjarskóli og Vallaskóli. Á lokahátíðinni kepptu þrír nemendur frá hverjum skóla sem höfðu verið valdir í forkeppnum í sínum skóla.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin og hafnaði Ársæll Árnason úr Sunnulækjarskóla í 1. sæti, Emilía Ýr Ólafsdóttir í 2. sæti og Erla Björt Erlingsdóttir í 3. sæti en þær eru báðar úr Grunnskólanum í Hveragerði.

Í fyrstu umferð lásu keppendur svipmyndir úr skáldsögunni Stormsker eftir Birki Blæ Ingólfsson. Í annarri umferð voru lesin valin ljóð eftir Jón Jónsson úr Vör. Í lokaumferðinni voru lesin ljóð að eigin vali. Verðlaunahafar frá í fyrra, þau Guðjón Árnason og Álfrún Diljá Kristínardóttir, lásu kynningar á skáldum keppninnar.

Áður en sjálf keppnin hófst flutti Ævar Þór Benediktsson, leikari og rithöfundur, keppendum og gestum skemmtilegt ávarp. Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga voru flutt í upphafi og á milli lestra sem gaf samkomunni hátíðarblæ.

Dómnefndin var skipuð þeim Jóni Hjartarsyni fyrir hönd Radda, Ásmundi Sverri Pálssyni, íslenskufræðingi, og Elinborgu Sigurðardóttur, fyrrverandi kennsluráðgjafa og sérkennara.

Fyrri greinSjö manns í sóttkví á Suðurlandi
Næsta greinLokað fyrir heimsóknir á Sólvöllum, Kirkjuhvoli, Lundi og Hjallatúni