Arnór Ingi Sunnlendingur ársins 2022

Arnór Ingi Davíðsson fyrir utan heimili sitt í Hveragerði, með Hamarinn í baksýn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lesendur sunnlenska.is kusu hinn 15 ára gamla Arnór Inga Davíðsson Sunnlending ársins 2022. Arnór Ingi vann mikla hetjudáð þegar hann bjargaði tíu ára bróður sínum, Bjarka Þór, úr snjóflóði sem féll í Hamrinum þann 19. febrúar 2022.

„Mér líður ekkert eðlilega vel að fá þennan titil, þetta er mikill heiður og ég er mjög stoltur,“ sagði Arnór þegar hann fékk fréttirnar. Honum þótti ekki verra að heyra að hann hefði slegið við sjálfum Ómari Inga Magnússyni, íþróttamanni ársins, í kjörinu. „Hann er geggjaður,“ segir Arnór og hlær.

Sem fyrr segir var það hinn 19. janúar 2022 sem þeir bræður voru við leik í Hamrinum að snjóflóð hreif þá með sér niður hlíðina, á þessu vinsæla útivistarsvæði Hvergerðinga.

„Þetta er aðal leiksvæðið í Hveragerði og við erum vanir að vera þarna. Þetta var bara venjulegur dagur, sól og mjög fínt og það var mjög mikill snjór í fjallinu. Ég fer upp og ætla að renna mér niður, bróðir minn er fyrir neðan og þegar ég fer af stað þá finn ég bara að það kemur geðveikt mikill snjór á eftir mér. Ég renn með snjónum niður og lendi á steini og Bjarki lendir við tré,“ segir Arnór.

Gott að sjá björgunarsveitina koma
Tíminn var lengi að líða við þessar aðstæður, Arnór fann bróður sinn og gróf frá andlitinu á honum áður en hann hringdi í Neyðarlínuna, 112.

„Ég vissi ekki alveg hvar hann hafði lent en heyrði í honum kalla og öskra á hjálp. Hann fór á bólakaf, fékk meterslag af snjó yfir sig en andlitið stóð uppúr. Það var erfitt að vera rólegur en ég náði að róa mig niður og róa bróður minn líka. Við töluðum saman en við vorum samt mjög stressaðir. Það var gott að sjá björgunarsveitina koma,“ segir Arnór en það tók björgunarsveitarfólkið aðeins tólf mínútur að komast á staðinn.

„Þeir stóðu sig ekkert eðlilega vel. En það var rosalega erfitt að bíða, þessi stutti tími leið eins og þrír klukkutímar.“

1-1-2 það fyrsta sem mér datt í hug
Þeir Arnór og Bjarki búa skammt frá Hamrinum en fyrsta hugsun Arnórs var að hringja í Neyðarlínuna, frekar en að hringja í pabba sinn.

„Ég veit það ekki, ég gat bara ekki hugsað neitt annað, þetta var bara það fyrsta sem mér datt í hug, að hringja í 1-1-2. Ég vissi að þeir kynnu þetta og myndu koma og hjálpa mér. Ég hringdi svo í pabba þegar þetta var allt búið,“ segir Arnór og bætir við að þó að hann sé margoft búinn að segja þessa sögu þá sé erfitt að hugsa til baka.

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert. Þegar ég hugsa til baka… það er erfitt að hugsa til baka. Ég vil aldrei þurfa að lenda í þessu aftur, þetta er það versta sem ég hef upplifað. En ég lærði það af þessu hvað það er mikilvægt að hringja í 112. Ég fékk hjálp strax og þá varð ég rólegri. Ef maður panikkar þá hugsar maður ekki rétt.“

Það bjóst enginn við þessu
Þeir bræður hafa ekki farið mikið í Hamarinn eftir slysið og Arnór segir að snjóflóð á þessum stað hafi komið mörgum á óvart, þannig að krakkarnir í Hveragerði passi sig betur núna.

„Ég er búinn að fara einu sinni í Hamarinn eftir að þetta gerðist. Það var erfitt og rifjaði upp allar þessar minningar. Ég held að Bjarki sé ekki búinn að fara þarna síðan og ég veit ekki hvort hann fer þangað á næstunni. Nei, hann á örugglega eftir að fara, við komumst örugglega yfir þetta einhvern tímann,“ segir Arnór og brosir út í annað.

„Það bjóst enginn við því að þetta gæti gerst í þessu fjalli, þetta er síðasta fjallið á Íslandi þar sem ég myndi halda að það gæti fallið snjóflóð. En nú veit ég hvernig ég á að bregðast við og vonandi vita núna allir sem hafa heyrt þessa sögu hvað á að gera í svona aðstæðum,“ segir Arnór að lokum.

Frábær þátttaka í kosningunni
Þátttaka í kosningunni um Sunnlending ársins var frábær en aldrei hafa jafn margir fengið atkvæði í kjörinu, alls 65 manns. Arnór Ingi háði harða keppni við Ómar Inga Magnússon, landsliðsmann í handbolta og íþróttamann ársins, sem varð annar í kjörinu og í þriðja sæti varð Sigríður Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur, umhverfissinni og mannvinur í Hveragerði.

Skyndihjálparmanneskja ársins
Þann 14. febrúar síðastliðinn útnefndi Rauði kross Íslands Arnór Inga skyndihjálparmanneskju ársins og hér má sjá myndband um afrek hans, sem Rauði krossinn framleiddi í tilefni dagsins.

Fyrri greinUppsveitir unnu stórsigur – Stokkseyri fékk skell
Næsta greinHamarsmenn tryggðu sér deildarmeistatitilinn