Arnon bauð lægst í gatnagerð

Arnon efh í Hveragerði bauð lægst í gatnagerðarverkefni sem vinna á í Bröttuhlíð og Þverhlíð í Hveragerði í sumar. Átta tilboð bárust í verkið.

Verkið felst í endurnýjun lagna og lagningu bundins slitlags, gangstétta og annars frágangs í Bröttuhlíð og Þverhlíð. Ennfremur í lagningu göngustíga vestarlega í bænum og endurnýjun göngustígs og girðinga um Drullusundið svokallaða. Verkinu á að vera lokið í september.

Tilboð Arnon hljóðaði upp á tæpar 56,6 milljónir króna og var það eina tilboðið sem var undir 58 milljón króna kostnaðaráætlun.

Aðrir bjóðendur voru Gröfutækni ehf sem bauð tæpar 60,7 milljónir, Rein ehf sem bauð tæpar 67,0 milljónir, Grafa og grjót ehf sem bauð rúmar 68,2 milljónir, Hálsafell ehf sem bauð rúmar 70,0 milljónir, Jarðval sf sem bauð rúmar 70,7 milljónir, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf sem bauð 71,6 milljón og Jarðbrú ehf sem bauð rúmar 82,1 milljón króna í verkið.

Bæjarráð Hveragerðis samþykkti í morgun að taka tilboði Arnon ehf, en það er 97,4% af kostnaðaráætlun.