Árni Þór vígður í Dómkirkjunni

Ljósmynd/kirkjan.is

Í gærmorgun fór fram prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík, þar sem biskup Íslands vígði Árna Þór Þórsson en hann var ráðinn sóknarprestur í Víkurprestakalli á dögunum.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir sá um vígsluna en vígsluvottar voru sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Haraldur M. Kristjánsson, sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, og sr. Sveinn Valgeirsson. Dómkórinn söng og organisti var Kári Þormar.

Árni Þór Þórsson er 26 ára gamall, alinn upp í Grafarvoginum. Eftir að hafa dúxað í Tækniskólanum haustið 2014 hóf hann nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ haustið 2015 og lauk þar BA prófi í guðfræði í febrúar 2019. Þar næst lauk hann mag.theol. prófi í febrúar 2021. Unnusta hans er Hulda María Albertsdóttir og er hún hjúkrunarfræðingur að mennt og eiga þau eina tíu mánaða dóttur.

Í Víkurprestakalli eru sex sóknir og átta guðshús. Prestsbústaður er í Vík í Mýrdal og þar verður starfsaðstaða nýja sóknarprestsins.

Fyrri greinÁsókn í lóðir við ein verðmætustu gatnamót landsins
Næsta greinFjölbreytt dagskrá á Vori í Árborg