Árni Rúnar stefnir á 2.–4. sæti

Árni Rúnar Þorvaldsson, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi á Hornafirði, gefur kost á sér í 2.-4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi 16. og 17. nóvember nk.

Árni hefur verið bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Hornafirði frá árinu 2006 og á síðasta kjörtímabili var hann formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar. Hann er menntaður grunnskólakennari og hefur starfað sem slíkur undanfarin ár. Einnig hefur hann margvíslega reynslu af fjölbreyttum félagsstörfum, m.a. innan íþróttahreyfingarinnar og stéttarfélags kennara.

“Við banka – og gjaldeyrishrunið fyrir rúmum fjórum árum var stærsta verkefni jafnaðarmanna að standa vörð um velferðarkerfið. Það varð að gera samhliða miklum niðurskurði í ríkisútgjöldum ásamt endurskipulagningu íslensks fjármálakerfis og því að marka trúverðuga stefnu til framtíðar í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur á þessum erfiðu tímum tekist að standa vörð um velferðina í þjóðfélaginu þrátt fyrir harkalegan niðurskurð ríkisútgjalda,” segir Árni í framboðsyfirlýsingu sinni.

“Á næsta kjörtímabili verður mikilvægt að halda áfram á þessari braut. Hlúa verður að velferðarkerfinu og berja í þá bresti sem óhjákvæmilega hafa myndast í kjölfar hrunsins. Á sama tíma er mikilvægt að tryggja jafnvægi og stöðugleika í ríkisrekstrinum og að styrkja stoðir þjóðarbúskaparins til framtíðar.

Eitt stærsta verkefni næsta kjörtímabils verða atvinnumálin. Þau hafa eðlilega brunnið heitt á þjóðinni frá hruni enda varð atvinnuleysi mikið í kjölfar hrunsins. Á kjörtímabilinu hefur gengið vel að vinna á atvinnuleysinu. Það sýna tölur Hagstofunnar. Þrátt fyrir það er mikið verk óunnið í þeim efnum og mikilvægt að stjórnvöld skapi skilyrði fyrir frekari vöxt í atvinnulífinu,” segir Árni ennfremur.