Árni Freyr átti besta slagorðið

Árni Freyr fær hér afhenta gjafakörfu frá Sólrúnu Helgu Guðmundsdóttur, formanni atvinnu-, jafnréttis- og menningarmálanefndar Rangárþings ytra. Ljósmynd/RY

„Rangárþing ytra – fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð sveitarfélagsins Rangárþings ytra, sem fundið var eftir hugmyndasamkeppni í sveitarfélaginu.

Það var Árni Freyr Magnússon sem átti hugmyndina að slagorðinu sem bar sigur úr býtum en kosið var á milli nokkurra slagorða. Viðurkenningar voru veittar fyrir slagorðin sem lentu í 1.-3. sæti ásamt því sem einn einn heppinn þátttakandi í kosningunni fékk útdráttarverðlaun.

Í 2. sæti varð „Rangárþing ytra – Fólkið, fjöllin, fegurðin“ og í 3. sæti varð slagorðið „Rangárþing ytra – Brosandi byggð“.

Í lýsingu segir Árni Freyr að með nýja slagorðinu finnist honum sveitarfélagið gefa það skýrt til kynna að í Rangárþingi ytra sé samfélag sem hugsi vel um íbúa en bjóði á sama tíma gesti og þá sem vilja setjast að í sveitarfélaginu velkomna. Slagorðið undirstriki að sveitarfélaginu sé bæði annt um fyrirtæki og fjölskyldur og allar þær fjölmörgu atvinnugreinar sem einkenna fjölbreytt atvinnulíf sveitarfélagsins. Einnig býr það til samheldnistilfinningu hjá íbúum og þá tilfinningu að íbúar séu hluti af heild og að þeir séu samfélag sem skilji engan út undan. Vilji sé þá hjá sveitarfélaginu til að vera til staðar fyrir íbúana alla.

Frá þessu er greint í fréttabréfi Rangárþings ytra sem má nálgast hér.

Fyrri greinÚti að aka á annan í jólum
Næsta grein389 í einangrun á Suðurlandi