Árnesingar viðbúnir öskufalli

Almannavarnanefnd Árnessýslu kom saman til fundar í morgun og var farið yfir stöðuna vegna goss í Eyjafjallajökli og hugsanlegar afleiðingar af því í Árnessýslu.

Veðurspá er íbúum Árnessýslu hagstæð en ljóst er að ef vindátt snýst til austlægra átta mun verða hætta á öskufalli í sýslunni. Áhrif öskufalls eru margvísleg og verður farið yfir þau hér á eftir.

Almenningur getur nálgast rykgrímur á heilsugæslustöðvum en rykgrímur sem notaðar eru í byggingariðnaði og fást í byggingavöruverslunum gera sama gagn. Eins má vel bjarga sér með því að setja klút fyrir vitin. Grímur þarf einungis að nota utanhúss þar sem öskufalls gætir.

Vatnsveitur í sýslunni eru vel búnar og kerfi þeirra lokuð. Því er ekki talin hætta á að drykkjarvatn spillist. Hafi einhverjir komið sér upp einkaveitu t.d. við sumarhús þarf að hafa í huga hvort aska geti borist í hana. Upplýsingar og leiðbeiningar um vatnsveitur geta menn fengið hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Fyrri greinHækkar í Markarfljóti
Næsta greinMiklar eldingar í gosmekkinum