Arnarstaða Rektor besti hundur sýningarinnar

Arnarstaða Rektor, frá Arnarstöðum í Flóahreppi, var valinn besti hundur Alþjóðlegrar sýningar Hundaræktarfélags Íslands í reiðhöllinni í Víðidal um síðustu helgi.

Á sýninguna mættu 730 hreinræktaðir hundar af 77 hundategundum. Dómararnir komu frá fimm löndum en Daninn Gert Christensen dæmdi íslenska fjárhundinn og tegundahóp 5. Marija Kavčič dæmdi besta hund sýningarinnar en bæði eru þau mjög virt innan dómarastéttarinnar.

„Þarna kepptu margir fallegir íslenskir fjárhundar. Rektor varð besti hundur tegundar og efstur í sínum tegundahópi og keppti því um titilinn „Besti hundur sýningar“ við níu aðra hunda,“ sagði Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir, eigandi og ræktandi Rektors, í samtali við sunnlenska.is.

Rektor er fimm ára gamall, margverðlaunaður sýningarhundur og er hann er bæði íslenskur og alþjóðlegur meistari og var stigahæsti hundur Hundaræktarfélags Íslands árið 2009.

„Þessi ræktunarlína sem ég er með núna kemur út af frábærri tík, Leiru Runu Gunn, sem ég eignaðist árið 2001. Hún er móðir og amma hundanna sem ég á í dag,“ segir Guðríður. „Lánið er að eignast svona gott ræktunardýr og heppnast að velja rétt á móti. Rektor er einstaklega fallegur og vel gerður hundur m.a. hvað varðar byggingu og hreyfingar. Bróðir hans sammæðra varð heimsmeistari íslenska fjárhundsins á „Dog world show 2010“ í Herning Danmörku. Mörg önnur afkvæmi þessarar frábæru ræktunartíkar hafa staðið sig vel bæði hér á landi og erlendis.“

„Það skiptir líka miklu máli að vera með góðan sýnanda,“ segir Guðríður en barnabarn hennar, Þorbjörg Ásta Leifsdóttir, sýndi Rektor um helgina eins og nánast allan hans sýningarferil. „Þau eru bæði heimaræktuð,“ segir Guðríður og hlær. „En að öllu gamni slepptu þá má ekkert klikka hjá sýnandanum. Þorbjörg Ásta er mjög áhugasöm hundakona og er orðin með reyndari sýnendum sem við eigum.“

Rektor býr þó ekki á Arnarstöðum því hann er heimilishundur hjá vinum Guðríðar, Guðrúnu Sveinsdóttur og Valdimar Þorsteinssyni á Selfossi.

Á myndinni með fréttinni eru (f.v.) Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir, Marija Kavčič dómari, Þorbjörg Ásta Leifsdóttir, Gert Christensen dómari og Jóna Th. Viðarsdóttir, formaður HRFÍ.

Fyrri greinPáll Sveinsson: Hvert stefnum við Hveragerði?
Næsta greinEyvindur stofnar unglingadeild