Arnarlax hefur rekstur á Hallkelshólum

Í nýrri stöð Arnarlax í Ölfusi. Ljósmynd/Aðsend

Arnarlax festi nýverið kaup á seiðaframleiðslu Fjallalax á Hallkelshólum í Grímsnesi, og hefur þar með hafið rekstur í þriðju eldisstöð félagsins á Suðurlandi, en hinar tvær eru í Ölfusinu.

Í síðustu viku veitti Matvælastofnun svo fiskeldisstöðinni 100 tonna rekstrarleyfi fyrir seiða- og mateldi á lax og bleikju. Framleiðslan í stöðinni er þegar hafin og hafa um 500 þúsund hrogn verið tekin í hús.

Stöðvarstjóri Fjallalax að Hallkelshólum er Matthew Chernin, frá Kaliforníu í Bandaríkjunum. Matthew fluttist hingað til lands, nánar tiltekið til Selfoss, á seinasta ári. Hann hefur áður starfað við fiskeldi í Washington-ríki í Bandaríkjunum, Sri Lanka og síðast í Noregi, þar sem hann lauk einnig meistaranámi í ræktun sjávarafurða við Landbúnaðarháskólann að Ási í Noregi. Matthew hefur staðið í ströngu við undirbúning á aukningu framleiðslunnar síðustu misseri.

Framleiðslan í stöðinni er þegar hafin og hafa um 500 þúsund hrogn verið tekin í hús. Ljósmynd/Aðsend

Ferðasjóður Sólheima fékk gangsetningargjöf
Stöðin að Hallkelshólum var byggð af miklum myndarskap á sínum tíma af heimafólkinu Gísla Hendrikssyni og Rannveigu Björgu Albertsdóttur sem einnig hafa látið sig starfsemina á Sólheimum í Grímsnesi miklu varða. Til að fagna því að laxeldi sé hafið í stöðinni ánafnaði Arnarlax 500.000 kr. í ferðasjóð fatlaðra íbúa Sólheima.

Arnarlax er sem áður segir þegar með starfsemi á tveimur stöðum í Ölfusi, sem orðið er eitt fremsta fiskeldissveitarfélag landsins en fjölmörg eldisfyrirtæki hafa valið sér stað þar. Starfsemi Arnarlax á Suðurlandi fer ört vaxandi og starfa nú 15 manns hjá fyrirtækinu á svæðinu.

Stöðvarstjóri Fjallalax að Hallkelshólum er Matthew Chernin. Ljósmynd/Aðsend
Stöðin hefur 100 tonna rekstrarleyfi fyrir seiða- og mateldi á lax og bleikju. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinFrestað hjá Hamri í kvöld
Næsta greinViðbragðsáætlun Selfossveitna virkjuð