Arnari og Ársæli lagt en landverkafólki ekki fækkað

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Skinneyjar-Þinganess hf á Hornafirði og Auðbjargar ehf í Þorlákshöfn, en Skinney-Þinganes keypti Auðbjörgu í fyrra.

Við skoðun samrunans kom í ljós að hlutdeild samrunaaðila í öllum tegundum nema humar var lægri en 20 prósent af úthlutuðum aflaheimildum.

Samkeppniseftirlitið aflaði ítarlegri upplýsinga um markaðinn fyrir veiðar, vinnslu og sölu á humarafla og gaf sú rannsókn engar vísbendingar um að samruninn væri til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti. Af þeim sökum voru ekki forsendur til íhlutunar í málinu.

Í kjölfar þessa hefur Skinney-Þinganes sent frá sér tilkynningu um framhald reksturs útgerðar og vinnslu í Þorlákshöfn. Þar hyggst fyrirtækið byggja upp öfluga og sérhæfða vinnslu þar sem áhersla verður lögð á vinnslu fersks og frysts þorsks en jafnframt er stefnt á vinnslu fleiri tegunda í framtíðinni.

Samruninn felur í sér fækkun á skrifstofu, fjöldi landverkafólks verður hinn sami en bátunum Arnari og Ársæli, sem gerðir hafa verið út af Auðbjörgu, verður lagt. Þess í stað verður landað úr Þinganesinu í Þorlákshöfn og ætlað er að sjómönnum á vegum Auðbjargar verði boðið að sækja um pláss á Þinganesinu í kjölfar breytinganna.

Fyrri greinNýtt myndband frá Mixophrygian
Næsta grein11 þúsund færri gestir