Arnar Freyr gefur kost á sér til forystu hjá Framsókn

Arnar Freyr Ólafsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Arnar Freyr Ólafsson, alþjóða fjármálafræðingur í Hvammi á Eyrarbakka, gefur kost á sér í 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í Árborg.

Helgi S. Haraldsson, núverandi oddviti Framsóknar í Árborg, tilkynnti það í gærkvöldi að hann hyggðist ekki gefa kost á sér í efstu sæti listans.

„Í ljósi breytinga í forystusveit framboðsins hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknarmanna í komandi bæjarstjórnarkosningum. Það er mikil eftirsjá af Helga úr bæjarstjórninni og það verður verðugt verkefni að feta í fótspor hans. Á undanförnum árum hefur Helgi verið forseti bæjarstjórnar og leitt vöxt Árborgar af miklum dugnaði og sóma. Það verður spennandi að halda áfram að vinna að framgangi Árborgar á komandi árum og því gef ég kost á mér til forystu,“ segir Arnar Freyr í samtali við sunnlenska.is.

Arnar er menntaður alþjóða fjármálafræðingur með auka áherslu á hagfræði frá The University of Alabama í Bandaríkjunum en hefur unnið í ferðaþjónustu undanfarin ár.

„Ég og kona mín, Helga Kristín Böðvarsdóttir, höfum starfað í eigin rekstri í ferðaþjónustu á mjög krefjandi tímum. Frá útskrift árið 1998 hef ég starfað sem sérfræðingur í banka ásamt því að taka að mér verkefni á viðsnúningi rekstrar hjá ýmsum fyrirtækjum,“ segir Arnar Freyr en fjölskyldan hefur búið í Hvammi á Eyrarbakka í rúm tuttugu ár.

„Við höfum séð sveitarfélagið þróast mikið á þessum tíma frá því að við fluttumst að Hvammi. Eyrarbakki, Stokkseyri, Sandvíkurhreppur, ásamt höfuðstað Suðurlands, Selfossi, eru einir eftirsóknarverðustu búsetukostir landsins um það vitnar fólksfjölgun undanfarinna ára. Ábyrg rekstrarstjórnun og fjölgun tekjustofna verða megináherslur okkar Framsóknarmanna ásamt því að þjónusta við íbúa sé sem best verður á kosið,“ segir Arnar Freyr að lokum.

Fyrri greinD-listi Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra samþykktur
Næsta greinÖruggur sigur í lokaumferðinni