Arna spyr um gúmmíkurlið

Bæjarráð Árborgar hefur falið Braga Bjarnasyni, menningar- og frístundafulltrúa sveitarfélagsins, að kanna hversu mikill kostnaður er við að skipta út gúmmíkurli á sparkvöllum í Árborg.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lagði fram fyrirspurn á fundi bæjarráðs í morgun þessa efnis.

Í Árborg eru fimm sparkvellir/knattspyrnuvellir þar sem notað er endurunnið dekkjagúmmí. Í fyrirspurn Örnu segir að undanfarin ár hafi verið mikil umræða um heilsuspillandi áhrif þess að slíkt gúmmí sé notað á slíkum völlum.

„Vegna þessa óska ég eftir að það verði skoðað hvað það felur í sér mikla kostnaðaraukningu að skipta út því endurunna dekkjagúmmíi, sem notað er í dag í sveitarfélaginu, í umhverfisvænt gúmmí,“ segir Arna Ír í fyrirspurninni.

Bæjarráð vísaði fyrirspurninni til Braga frístundafulltrúa.

Fyrri greinHádegisfyrirlestur um hjartasjúkdóma
Næsta greinBocciaæfingar tvisvar í viku á Hvolsvelli