Ari Allansson ráðinn forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar

Ari Allansson. Ljósmynd/Austurfrétt

Selfyssingurinn Ari Allansson hefur verið ráðinn forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar. Alls sóttu tíu einstaklingar um stöðuna.

Ari er með doktorspróf í kvikmyndafræði frá EICAR Film School með áherslu á hlutlæga og óhlutlæga kvikmyndagerð auk þess sem hann lauk mastersnámi í leikstjórn og framleiðslu frá sama skóla. Hann hefur víðtæka reynslu af kvikmyndagerð og kvikmyndastjórn ásamt því að að reka eigið framleiðslufyrirtæki sem framleitt hefur heimildarmyndir, stuttmyndir og fréttaefni fyrir fjölmiðla í Frakklandi, Svíþjóð og Íslandi.

Að auki hefur Ari unnið að skipulagningu íslenskra og norræna menningarviðburða í Frakklandi í samstarfi við hin ýmsu sendiráð Norðurlandanna ásamt menningarstofnunum í París. Hann hefur ennfremur komið að skipulagningu vinnustofa og stjórnun ýmissa menningarviðburða.

Ari kemur til starfa í lok ágúst og tekur við starfinu af Körnu Sigurðardóttur sem leitt hefur starf Menningarstofunnar og Tónlistarmiðstöðvar Austurlands síðustu ár.

Austurfrétt greinir frá þessu.

Fyrri greinViktor veiddi fyrsta lax sumarsins
Næsta grein„Englar og menn“ hefst á sunnudag