
Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíðin hafa skrifað undir samstarfssamning við fyrirtækið Arctic Adventures sem felur í sér árlegan styrk að upphæð 1 milljón króna á ári til næstu fimm ára.
Markmið samstarfsins er að byggja upp sterkt og jákvætt samband þar sem aðilar styðja hver annan meðal annars í gegnum sameiginlega viðburði, kynningu og samfélagsverkefni sem styrkja traust og samheldni í nærsamfélaginu.
Starf Björgunarfélags Hornafjarðar og Slysavarnardeildarinnar byggir á sjálfboðaliðastarfi. Það er krefjandi, fjölbreytt og kallar á stöðugan undirbúning, þjálfun og góða aðstöðu. Stuðningur Arctic Adventures skiptir því miklu máli og gerir félögunum kleift að halda áfram að efla starfsemina og vera til staðar þegar mest á reynir.
