Arctic Adventures og Into the Glacier sameinast

Í Raufarhólshelli. Mynd úr safni.

Arctic Adventures hf. og Icelandic Tourism Fund (ITF) hafa gert samkomulag um sameiningu ferðaþjónustufyrirtækjanna Into the Glacier ehf. og Arctic Adventures. Sameinað félag mun starfa undir merkjum Arctic Adventures.

ITF hefur einnig selt Arctic Adventures hluti í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu sem eru með starfsemi víðsvegar um landið, meðal annars í Raufarhólshelli í Ölfusi.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, segir markmið félagsins vera að skapa öflugt og samkeppnishæft félag sem sé betur í stakk búið til að takast á við þá alþjóðlegu samkeppni sem íslensk ferðaþjónusta á í.

„Afþreying fyrir ferðafólk er lykilþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og eiga fyrirtækin í þessum geira í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni. Með sameiningu við Into the Glacier og kaupum í fjórum öðrum fyrirtækjum getur Arctic Adventures nú boðið upp á þjónustu í beinu samstarfi við ferðþjónustuaðila í öllum landshlutum sem skiptir okkur miklu máli.“

Kaupa hlut ITF í Raufahóli ehf.
Arctic Adventures kaupir meðal annars hlut ITF í Raufarhóli ehf. sem starfrækir ferðaþjónustu í Raufarhólshelli. Kaupverðið er greitt með hlutum í Arctic Adventures og verður Raufarhóll ehf áfram rekið sem sjálfstætt félag en í nánu samstarfi við Arctic Adventures.

Sameiningin og kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á fyrirtækjunum og í ákveðnum tilvikum samþykki annarra hluthafa í fyrirtækjunum.

Fyrri greinSorp frá Suðurlandi flutt til brennslu í Evrópu
Næsta greinVörubíll valt á Hellisheiði