Árborgarstrætó lenti utan vegar

Vagninn utan vegar í morgun. Ljósmynd/Sigurður Steindórsson

Bílstjóri og farþegar sluppu ómeiddir þegar ökumaður Árborgarstrætó missti stjórn á vagni á Eyrarbakkavegi í gærkvöldi og lenti utan vegar.

„Þetta var síðasta ferðin í gærkvöldi, það var þæfingsfærð og slæmar aðstæður. Það voru tveir eða þrír farþegar í bílnum og þetta fór sem betur fer vel,“ sagði Tyrfingur Guðmundsson hjá GTS ehf í samtali við sunnlenska.is.

Vagninn, sem var á leið niður Eyrarbakkaveg, fór yfir á öfugan vegarhelming og útaf veginum austanmegin. Litlu mátti muna að hann lenti á hliðinni ofan í skurði en hann stöðvaðist nánast á skurðbrúninni.

Að sögn Tyrfings verður unnið að því að koma bílnum upp á veg í dag en ekki ættu að verða tafir á annarri umferð vegna þess.

Fyrri greinÞórsarar misstigu sig – Hamar grátlega nálægt sigri
Næsta greinTímamótasamningur um samstarf ríkis og landeiganda