Árborgarar nálgast tíunda þúsundið

Hluti af íbúum Árborgar (og gestir þeirra) í Hleðsluhöllinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íbúafjöldi Sveitarfélagsins Árborgar nálgast tíuþúsundmarkið óðfluga en þann 1. júlí síðastliðinn bjuggu 9.722 íbúar í sveitarfélaginu og hafði fjölgað um 275 frá 1. desember 2018.

Að jafnaði er þetta fjölgun um 40 íbúa í mánuði og ef fjölgunin helst stöðug má búast við að Árborgarar verði 9.962 á gamlársdag og að 10.000 íbúa múrinn verði rofinn í janúar 2020.

Frá 1. desember 2018 til 1. júlí síðastliðins varð hlutfallslega mest fjölgun íbúa á landinu á Suðurlandi. Þar fjölgaði um 539 íbúa eða 2,3%.

Mesta prósentufjölgunin á þessu tímabili var í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem fjölgaði um 4,9% eða 24 íbúa. Íbúar í hreppnum voru 513 þann 1. júlí. Einnig fjölgaði hlutfallslega mikið í Sveitarfélaginu Ölfusi, um 3,8% eða 83 íbúa og hafa Ölfusingar aldrei verið fleiri, 2.240 talsins.

Íbúum fækkaði í tveimur sveitarfélögum frá 1. desember til 1. júlí. Mikil hlutfallsleg fækkun var í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem fækkaði um 30 íbúa, eða 4,7%. Í Mýrdalshreppi fækkaði um 4 íbúa eða 0,6%.

Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um íbúafjölda eftir sveitarfélögum.

Fyrri greinEva María með silfur í Gautaborg – fjögur HSK met féllu
Næsta grein„Syngið þið fuglar“ í Strandakirkju