Árborg vill taka land eignarnámi

Sveitarfélagið Árborg hefur lagt fram beiðni um eignarnám á landi við Ingólfsfjall sem er í kringum vatnsból sveitarfélagsins.

Landið sem um ræðir er í eigu fjölmargra aðila í Sveitarfélaginu Ölfusi en Árborg hefur á undanförnum árum leitast eftir því við eigendurnar um að fá landsvæðið keypt. Samningar um það hafa ekki tekist og því er eignarnámsbeiðnin lögð fram.

Það er Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem tekur afstöðu til beiðninnar og hvort þeir almannahagsmunir séu til staðar sem réttlæti eignarnám, og hefur það leitað umsagnar viðkomandi aðila við því.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar er málið í sínu ferli og leggja þarf fram talsvert af gögnum í tengslum við það.

Fyrri greinTryggvaskáli opnar í kvöld
Næsta greinLeyfi fyrir stórum lögnum á Hellisheiði