Árborg vill kaupa Björgunarmiðstöðina

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að ganga til samninga við Íslandsbanka um kaup á Björgunarmiðstöð Árborgar.

„Við munum ræða við bankann um kaupin annars vegar og fjármögnun hins vegar. Við þurfum að ná samningum þannig að bæjarsjóður beri ekki skaða af og þetta íþyngi ekki rekstri sveitarfélagsins,“ sagði Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Það var ákveðinn vendipunktur í málinu að það var samstaða í fulltrúaráði brunavarna að menn stæðu saman um upprunaleg áform og vonandi gengur þetta allt eftir. Það er ekki kominn samningur á borðið en það er ákveðið skref að ganga til samninga og vonandi verður þeim viðræðum lokið fyrir verslunarmannahelgi,“ sagði Eyþór ennfremur.

Íslandsbanki hafði í vetur boðið sveitarfélaginu húsið til kaups á 220 milljónir en Árborg gerði gagntilboð upp á 167 milljónir sem bankinn hafnaði. Eyþór segir að dregið hafi saman með samningsaðilum og nú sé kominn grundvöllur til að semja.