Árborg tekur 1,4 milljarða króna lán til tveggja ára

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær að taka tæplega 1,4 milljarða króna lán til tveggja ára í gegnum lánalínu hjá Landsbankanum. Er lánið tekið til að fjármagna sveitarfélagið í gegnum eignir sem eru í söluferli, að því er fram kemur í fundargerð.

Samhliða lántökunni verður yfirdráttarheimild sveitarfélagsins lækkuð úr 750 milljónum króna í 400 milljónir.

Lánið er tryggt með veðsetningu í þremur fasteignum sveitarfélagsins; Sandvíkurskóla við Tryggvagötu, landspildu í Björkurstykki og lóðinni Tryggvagötu 36, þar sem nýverið var samþykkt að selja byggingarrétt á lóðinni á 265 milljónir króna.

Bæjarráð veitti Fjólu St. Kristinsdóttur, bæjarstjóra, fullt og ótakmarkað umboð fyrir hönd sveitarfélagsins til að undirrita lánasamning við Landsbankann hf, sem og önnur skjöl eða útgáfu fyrirmæla sem þessari lántöku og veðsetningu.

Fyrri greinGæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Næsta greinListahátíðin „Dálítill sjór“ á Eyrarbakka