Árborg skoðar sölu á tæplega helmingshlut í fráveitunni

Selfoss. sunnlenska.is/Þórir Tryggvason

Meirihluti bæjarstjórnar í Árborg hefur nú til frumskoðunar mögulega aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun innviða í sveitarfélaginu, þar sem sérstaklega er horft til fráveitumála. Engin tillaga hefur verið gerð til bæjarstjórnar um málið enn þá.

Málið var kynnt fyrir bæjarstjórn þann 12. desember síðastliðinn en sú leið sem kynnt var felur í sér að Innviðir fjárfestingar slhf., fjárfestingasjóður lífeyrissjóða, myndi kaupa tæplega helmingshlut í nýju félagi sem stofnað yrði um fráveituna. 

Greiðsla Innviðasjóðsins myndi lækka skuldabyrði Árborgar
„Með þessu móti væru lífeyrissjóðirnir að leggja fram fé í fráveituna, án þess að um eiginlegt lán væri að ræða heldur væri Innviðir fjárfestingar slhf. að gerast meðeigandi. Greiðsla Innviðasjóðsins fyrir sinn hlut myndi lækka skuldabyrði Árborgar í sama mæli. Slík lækkun skulda gæti skipt miklu máli, nú þegar fyrir liggur að á næstu árum þarf að fjárfesta í ýmsum innviðum sveitarfélagsins, s.s. skólum, íþróttamannvirkjum og fráveitu,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins.

„Arðsemiskrafan sem gerð væri til þess hlutafjár sem lagt væri í félagið er líklega um það bil 6,7%. Sú ávöxtun rynni annarsvegar í til íbúanna í gegnum bæjarsjóð og hinsvegar í sjóði lífeyrisþega. Í dag gerir sveitarfélagið 7% arðsemiskröfu til fráveitunnar og því gæti allt eins farið svo að fráveitugjöld myndu lækka. Faglegt aðhald stjórnar og skýr rammi um verkefnið gæti auk þess skilað sér í bættum rekstri málaflokksins og auknu gagnsæi,“ segir Gísli ennfremur.

Hann bætir við að þessi aðferð til að afla fjármagns dragi úr áhættu sveitarfélagsins af verðbólguskotum og efnahagsáföllum, bæði vegna lækkaðrar skuldsetningar og einnig vegna skiptrar ábyrgðar á fráveitunni.

„Ef svo fer að tillaga verði gerð til bæjarstjórnar um að ganga til samninga við Innviði fjárfestingar slhf. þá verður vandað til verka, litið til reynslunnar og samningar gerði í samráði við endurskoðendur og lögræðinga. Allt verður uppi á borðinu og þarf að standast skoðun,“ segir Gísli að lokum.

Fyrri greinEkkert rafmagnsleysi þrátt fyrir bilunina
Næsta greinÞrír látnir og fjórir alvarlega slasaðir eftir slys við Núpsvötn