Árborg skilar meiri rekstrarafgangi en áætlað var

Rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar árið 2014 er betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og afgangur af rekstri samstæðunnar fimmta árið í röð.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu kemur fram að fjármagnsgjöld nemi 334 milljónum króna nettó, eða um 59,5 milljónum minna en áætlun gerði ráð fyrir. Afskriftir nema 368 milljónum króna, en engu að síður er afgangur upp á 122,9 milljónir fyrir skatta sem er 63,5 milljónum króna hærra en gert var ráð fyrir í áætlun. Tekjuskattur nemur 20,5 milljónum króna en rekstrarniðurstaða samstæðunnar er jákvæð um 102,3 milljónir, eða 42,7 milljónum betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Skuldir eru enn miklar og skuldahlutfallið 153%. Fjárfesting á árinu 2014 nam 1.403 millj.kr., veltufé frá rekstri var 744 millj.kr. og 728 millj.kr. greiddar í afborganir lána. Ný lán voru tekin að fjárhæð 1.390 millj.kr. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar hækkaði meira á milli ára en gert hafði verið ráð fyrir, sömuleiðis hækkaði lífeyrisskuldbinding sem hluti af skuldum sveitarfélagsins, eða um 135 millj.kr. á milli ára, sem er meiri hækkun nú en undanfarin ár.

Í tilkynningunni segir að áfram verði leitast við að vinna að hagræðingu í rekstri og lækkun skulda eins og kostur er.

Fyrri greinRagnar aftur í Þór
Næsta greinSelfyssingar byrja á heimavelli