Árborg semur við Fljóaljós um ljósleiðara á þrjá bæi

Ljósleiðari lagður á Skeiðunum. Mynd úr safni.

Sveitarfélagið Árborg hefur samþykkt að ganga til samninga við Flóaljós um lagningu ljósleiðara að bæjunum Hólum, Hólaborg og Baugsstöðum í Árborg.

Þessir bæir í gamla Stokkseyrarhreppi liggja vel við samtengingu við dreifikerfi Flóaljóss í Flóahreppi sem nú er unnið að. Samningurinn lágmarkar þannig kostnað Árborgar við ljósleiðaravæðingu bæjanna en útlagður kostnaður Árborgar er 4,3 milljónir króna án vsk og á móti koma tekjur af stofngjöldum og styrkur frá Fjarskiptasjóði.

Bæjarráð Árborgar samþykkti að ganga til samninga við Flóaljós á síðasta fundi sínum.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Árborgar var svo samþykkt að bjóða út báða áfanga lagningar ljósleiðara í dreifbýli. Lagning ljósleiðara í dreifbýli Árborgar er á fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins 2019-2020. Fyrri áfanginn var boðinn út í fyrra en báðum tilboðum sem bárust í verkið var hafnað, þar sem þau voru töluvert yfir áætluðum kostnaði.

Báðir áfangarnir verða nú boðnir út sameiginlega en ljósleiðaralagningin er styrkt um 80% af Fjarskiptasjóði í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt.

Fyrri greinHafþór ráðinn framkvæmdastjóri Hamars
Næsta greinBrúarstræti og Miðstræti í miðbænum – Kjartan sat hjá