Árborg selur Björkurstykki 3 á 1,2 milljarða króna

Fulltrúar Árborgar og Jórvík fasteigna undirrituðu kaupsamninginn, (f.v.) Aðalsteinn Jóhannsson frá Jórvík fasteignum, Sigríður Vilhjálmsdóttir, staðgengill bæjarstjóra og Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs. Ljósmynd/Árborg

Sveitarfélagið Árborg hefur gengið frá kaupsamningi við Jórvík fasteignir ehf. vegna sölu á landinu Björkurstykki 3 á Selfossi. Um er að ræða sölu á landi undir íbúðarbyggð fyrir 1,2 milljarða.

„Þetta er góð sala fyrir Sveitarfélagið Árborg og hefur jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins. Um er að ræða spennandi uppbyggingarsvæði sem býður upp á möguleika til fjölbreyttrar íbúðabyggðar og verður ánægjulegt að sjá það byggjast upp á næstu árum,“ segir Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar.

Sveitarfélagið auglýsti landið til sölu í desember síðastliðnum en það er hluti af Stekkjarhverfinu á Selfossi. Um er að ræða 17,5 ha land sem ætlað er undir íbúðabyggð og kaupandi landsins mun í framhaldinu sjá um deiliskipulagsgerð, hönnun, uppbyggingu innviða og sölu byggingarlóða.

Fjögur tilboð bárust í landareignina og reyndust þau öll yfir því lágmarksverði sem Árborg setti upp, 700 milljónir króna. Arcus ehf bauð 707,7 milljónir króna, Fagridalur ehf 731,3 milljónir, JT verk efh 810 milljónir og Jórvík fasteignir ehf 1,2 milljarða króna.

Tilboð Jórvíkur fasteigna er 73% yfir lágmarksverði Árborgar en ffyrirtækið hefur á undanförnum árum séð um sambærilega uppbyggingu íbúðahverfis í landinu Jórvík sem liggur að Björkurstykki 3.

Fyrri greinTeitur Örn kallaður til Kölnar
Næsta greinVirkjanir í Ölfusi og hagsmunir Hvergerðinga