Árborg seldi byggingarrétt á þremur iðnaðarlóðum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum fyrr í mánuðinum kauptilboð í þrjár iðnaðarlóðir við Víkurheiði á Selfossi.

Átta lóðir voru auglýstar til sölu og bárust kauptilboð í þrjár þeirra og reyndust þau öll vera yfir lágmarksverði sveitarfélagsins.

Pro garðar ehf bauð rétt rúmar 17,5 milljónir króna í Víkurheiði 19, sem var 17% yfir lágmarksverði sveitarfélagins. Táta ehf bauð 21 milljón króna í Víkurheiði 21, sem var 5% yfir lágmarksverði sveitarfélagsins og Akrasel ehf bauð tæpar 25,2 milljónir í Víkurheiði 22, sem var 16% yfir lágmarksverði sveitarfélagsins.

Á fundi bæjarráðs var sviðstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs falið að semja við hæstbjóðanda hverrar lóðar.

Byggingaréttur fyrir lóðir númer 3, 5, 13, 18 og 20 við Víkurheiði er áfram til sölu hjá sveitarfélaginu.

Fyrri greinBerserkirBJJ unnu tvo Íslandsmeistaratitla
Næsta greinGöngufólk í vandræðum á Ingólfsfjalli