Árborg samþykkir aðgerðir vegna COVID-19

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti í dag aðgerðir til að bregðast við áhrifum COVID-19 í samfélaginu.

Eigendur atvinnu- og íbúðarhúsnæðis geta sótt um frestun á allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda á tímabilinu frá apríl til nóvember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur til verður 15. janúar 2021

Þá verður aukinn sveigjanleiki í innheimtu og álagningu. Dráttarvextir verða ekki reiknaðir á fyrstu 6 mánuði vanskila vegna krafna sem sveitarfélagið gefur út í apríl og maí 2020. Innheimtubréf verða ekki send út ef greitt er eftir eindaga þessa sömu mánuði. Lögð verður áhersla á frekari sveigjanleika í innheimtu á meðan áhrifa gætir af Covid-19 og eru íbúar hvattir til að setja sig í samband við sveitarfélagið sjái þeir fram á erfiðleika við að standa í skilum.

Bæjarráð samþykkti einnig að hækka frístundastyrk ársins 2020 um tíu þúsund krónur fyrir börn á aldrinum 5-17 ára. Styrkurinn hækkar úr 35.000 í 45.000.

Þá munu foreldrar fatlaðra barna sem skipað eru í verndarsóttkví fá greitt fyrir fjóra tíma á dag, 18 virka daga í aprílmánuði, í stað félagslegrar liðveislu.

Áður hafði bæjarráð samþykkt að endurgreiða leikskólagjöld þá daga sem barn mætir ekki í leikskóla, sé það að höfðu samráði foreldra við leikskólastjóra. Fæðisgjöld á leikskóla verða endurgreidd fyrir þá daga sem börn fá ekki fæði. Sama fyrirkomulag gildir um gjöld fyrir frístundaheimili og fæði í grunnskólum.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að frekari aðgerðir séu þegar fyrirhugaðar og má þar nefna samráð við íþróttafélög til að bregðast við röskun á íþróttastarfi og mat á aðgerðum til að bregðast við aukinni félagslegri einangrun eldri borgara.

Fyrri greinHafa verulegar áhyggjur af miklum ferðalögum um páskana
Næsta greinHlæ líklega mest að sjálfum mér