Bæjarráð Árborgar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að senda erindi á sveitarstjórn Flóahrepps varðandi ósk Árborgar um mögulega tilfærslu á sveitarfélagamörkum og samtal um ávinning sameiningar sveitarfélaganna tveggja.
Um er að ræða landsvæði í Flóahreppi sem liggur í beinu framhaldi af núverandi sveitarfélagamörkum og Sveitarfélagið Árborg keypti árið 2014. Svarfhólsvöllur, golfvöllur Golfklúbbs Selfoss er m.a. í umræddu landi sem og nýr Suðurlandsvegur.
Á myndinni hér fyrir neðan sést nánar um hvaða landssvæði er að ræða en núverandi sveitarfélagamörk eru merkt með rauðri línu og blá lína sem sýnir mögulega tilfærslu.
Kanna ávinning sameiningar fyrir sveitarfélögin
Í erindinu lýsir Sveitarfélagið Árborg því einnig yfir að vera tilbúið til samtals um að skoða ávinning sveitarfélaganna beggja ef þau sameinast.
Í tilkynningu frá Árborg segir að mikil tækifæri séu til uppbyggingar í báðum sveitarfélögunum til framtíðar. Selfoss hefur þróast í að vera sameiginlegt þjónustusvæði íbúa sveitarfélaganna þegar horft er til almennrar þjónustu, hluta íþrótta- og frístundastarfs, velferðarþjónustu og fleiri þátta sem sveitarfélögin eru m.a. með í samstarfssamningum.
Mögulegt væri í framhaldinu að fá óháðan aðila til að vinna með sveitarfélögunum að kanna ávinning sameiningar fyrir íbúa og gæti slík vinna legið fyrir á fyrstu mánuðum næsta árs og verið veganesti inn í næsta kjörtímabil.

