Árborg og Sólheimar funda á morgun

Forsvarsmenn Sólheima í Grímsnesi og Sveitarfélagsins Árborgar munu funda um stöðu Sólheima á morgun.

„Við munum ræða stöðuna, fara yfir hvaða ákvarðanir framkvæmdastjórn Sólheima hefur tekið um hvernig þeir hyggjast koma þessu máli áfram. Ef þeir hafa áhuga á að sinna rekstrinum þarna áfram munum við væntanlega hefja samningaviðræður,” segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Óvissa hefur verið um rekstur Sólheima eftir áramót, þegar málaefni fatlaðra færast frá ríki til sveitarfélaga. Fram að þessu hafa forsvarsmenn Sólheima ekki viljað að málefni þessarar sjálfseignarstofnunar flytjist frá ríkinu til sveitarfélagsins.

Ásta segir ekki líklegt að samkomulag takist um áframhaldandi rekstur á fundinum á morgun. Líklegra sé að reynt verði að ná bráðabirgðasamkomulagi fyrir áramót til að skapa ráðrúm til að leysa varanlega úr málinu. Hún segir stjórnendur Árborgar fúsa til að leysa málin með samningum.

„Ég geng vongóður til þessa fundar, en svo verðum við bara að sjá hvernig þetta fer,” segir Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima í Grímsnesi. „Við verðum að láta reyna á þetta fyrst Alþingi brást okkur,” segir Guðmundur. Hann segir að leysa verði úr málinu fyrir áramót, en eftir fundinn á morgun liggi trúlega nokkurn veginn fyrir hvort einhver lausn sé í sjónmáli.