Árborg og Sleipnir gera þjónustusamning

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Sigríður Magnea Björgvinsdóttir, formaður Sleipnis undirrituðu samninginn. Ljósmynd/Árborg

Síðastliðinn föstudag var undirritaður þjónustusamningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Hestamannafélagsins Sleipnis um rekstrarstyrki og verkefni sem Sleipnir hefur umsjón með.

Það voru þau Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Sigríður Magnea Björgvinsdóttir, formaður Sleipnis sem undirrituðu samninginn sem gildir út árið 2021 með ákvæði um framlengingu.

Helstu atriði nýs samnings er að Hestamannafélagið Sleipnir býður áfram upp á reiðnámskeið yfir sumartímann fyrir börn, kemur að viðburðum í samfélaginu líkt og 17.júní og ákveðnum forvarnaverkefnum. Félagið tekur að auki að sér að sjá um útdeilingu á beitarstykkjum fyrir hestaeigendur á svæðinu í og við hesthúsahverfið á Selfossi.

Sveitarfélagið styrkir félagið sérstaklega með greiðslu styrks vegna reksturs reiðhallarinnar, viðhalds á æfinga- og keppnisvelli og afrekssjóðs sem er ætlað að styrkja íþróttamenn og þjálfara félagsins. Báðir aðilar mun síðan á árinu vinna áfram að framtíðarskipulagi hesthúsahverfisins á Selfossi, reiðvallar og reiðstíga út úr hverfinu.

Fyrri grein„Hvatning til að halda áfram að skapa meira bíó“
Næsta greinÆsispennandi glæpasaga á sviðinu á Borg