Árborg og MS standa að mjólkuriðnaðarsafni á Selfossi

Fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar og Mjólkursamsölunnar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um aðkomu beggja aðila að mjólkuriðnaðarsafni sem rísa mun á Selfossi.

Árborg og MS ætla að vinna sameiginlega að stofnun mjólkuriðnaðarsafns á Selfossi. Stofnaður verði vinnuhópur um verkefnið með fulltrúum beggja aðila sem vinnur að tillögum um útfærslu safnsins, staðsetningu o.fl. tengt verkefninu.

Sveitarfélagið hefur verið að leita leiða til þess að markaðssetja Selfoss og verður hugtakið „mjólkurbærinn“ nú notað í þeim tilgangi. Að sögn Kjartans Björnssonar, formanns menningarnefndar, hafa bæði innlendir og erlendir ferðamenn oft spurst fyrir um safn tengt mjólkuriðnaði í gegnum tíðina og því sé þetta skref mikið ánægjuefni. „Við munum byrja smátt en þetta verkefni mun síðan vinda upp á sig,“ segir Kjartan.

Hrundið verður af stað markaðsátaki þar sem kýrin Bella mun verða í sviðsljósinu, ljósastaurar verða málaðir skjöldóttir og fleira í þeim dúr sem minnir á tengingu Selfoss við mjólkurframleiðslu.

Fyrri greinBjarni Harðar: Óheillaskref í skólamálum á Suðurlandi
Næsta greinRútuslys í Grafningnum