Árborg og Kötlusetur fengu styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála

Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs, tók á móti styrknum. Með henni á myndinni eru Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti í gær hvaða verkefni hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls fengu 19 verkefni og rannsóknir samtals ríflega 40 milljónir króna, þar af tvö sunnlensk verkefni.

Kötlusetur í Vík í Mýrdal fékk 1,1 milljón króna styrk fyrir verkefnið Samfélagið okkar – við erum menningin. Hlutfall innflytjenda er hærra í Mýrdalshreppi en í nokkru öðru sveitarfélaga á Íslandi. Verkefninu er ætlað að styðja við jákvæða samfélagsþróun í fjölmenningarsamfélaginu í Mýrdalshreppi. Auka á möguleika erlendra íbúa til að tengjast samfélaginu, svo sem með íslenskukennslu, fjölmenningarkór, spilakvöldi með tungumálafélögum og ýmsum fleiri viðburðum.

Í umsögn dómnefndar um verkefni Kötluseturs segir að þar sé á ferðinni skemmtilegt verkefni sem stuðlar að virkri þátttöku allra í samfélaginu og byggir á virkri þátttöku innflytjendanna sjálfra.

Þá fékk Sveitarfélagið Árborg 1,3 milljón króna styrk fyrir verkefni sem miðar að því að efla tengsl heimila og leikskóla. Markmið þróunarverkefnisins er að bjóða foreldrum leikskólabarna með fjölmenningarlegan bakgrunn í leikskólum Árborgar upp á íslenskunámskeið þar sem þau fá tækifæri til að kynnast helstu hugtökum og efla orðaforða tengdu leikskólastarfi. Á skólaárinu 2022-2023 eru 84 leikskólanemar með fjölmenningarlegan bakgrunn í Árborg og samtals tala þeir u.þ.b. 30 tungumál. Fjölskyldusvið Árborgar ásamt öllum leikskólum Árborgar mun taka þátt í verkefninu.

Fyrri greinHamar HSK meistari í blaki karla
Næsta greinFyrsti Íslandsmeistaratitill Valgerðar